Innlent

Þrjú kjálkabrot á Þjóðhátíð

Þrjár kærur hafa verið lagðar fram hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum vegna líkamsárása sem áttu sér stað á Þjóðhátíð. Í öllum tilvikum var um kjálkabrot að ræða.

Í einu tilvikinu er um að ræða árás þar sem maður var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur aðfaranótt sunnudagsins 3. ágúst. Ekki liggur fyrir hver var að verki en grunur beinist að ákveðnum einstaklingi.

Þá kemur fram í dagbók lögreglunnar í Eyjum að í öðru tilvikinu hafi kjálkabrot ekki uppgötvast fyrr en á þriðjudeginum eftir verslunarmannahelgi. Í því tilviki var ráðist á mann fyrir utan sjoppurnar aðfaranótt 3. ágúst sl. og náði hann að komast undan árásarmönnumum með því að flýja inn í eina sjoppuna. Lögreglan biður þá sem einhverjar upplýsingar hafa um hver eða hverjir þarna gætu hafa verið að verki um að hafa samband við lögreglu.

Lögregla hefur áður auglýst eftir vitnum að þriðju árásinni en þar var skömmu fyrir brekkusöng ráðist á mann í gylltum leggingsbuxum, svörtum hermannaklossum og bleiku ballerínupils, bol og loðhúfu.

Þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um atvikin eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í Vestmannaeyjum í síma 481-1665.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×