Innlent

Stjórnvöld afnemi stimpilgjöld hið snarasta

Stjórnvöld verða að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir hrun á fasteignamarkaði að mati skipulagshagfræðings. Hann segir að afnema verði stimpilgjöld hið snarasta.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var greint frá því að framboð á húsnæði hér á landi væri þrisvar sinnum meira en eðlilegt getur talist. Framboðið á markaðinum nú dugir til að mæta eftirspurn næstu 18 mánuði en þegar húsnæðiskreppan í Bandaríkjunum stóð sem hæst dugðu birgðirnar þar í landi í 10 mánuði.

Jafnframt kom fram að miðað við sömu viku í fyrra þá hefur kaupsamningum fækkað um 80 prósent milli ára hér á landi en í Bandaríkjunum var það talið hættumerki þegra kaupsamningum fækkaði um 25 prósent. Það stefnir því í verulegar lækkanir á húsnæðismarkaði hérlendis verði ekkert að gert.

Seðlabanki Íslands spáði á dögunum 30 prósent lækkun húsnæðisverðs að raungildi fram til ársins 2010 sem þýðir, gangi spáin eftir, að hækkun húsnæðisverðs á undanförnum árum gengur að mestu leyti til baka. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skipulagshagfræðingur segir að ef fram heldur sem horfir muni spáin ganga eftir með alvarlegum afleiðingum fyrir íslenskt efnahagslíf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×