Erlent

Stærstu netveitur Bandaríkjanna loka á barnaklám

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Andrew Cuomo.
Andrew Cuomo. MYND/AP

Andrew Cuomo, saksóknari New York-ríkis, hefur gert skriflegt samkomulag við þrjár stærstu netveitur Bandaríkjanna sem felur í sér að veiturnar loki algjörlega fyrir aðgang viðskiptavina sinna að vefsíðum sem innihalda klámfengið efni er tengist börnum.

Fyrirtækin sem koma að samkomulaginu eru Verizon, Time Warner Cable og Sprint Nextel. Að auki hafa þessi þrjú stórfyrirtæki tekið ákvörðun um að koma á laggirnar sjóði sem mun hafa það að megintakmarki að styrkja aðgerðir sem miða að því að útrýma barnaklámi á Netinu.

Það er hins vegar staðreynd að erfitt er að henda reiður á öllum þeim samskiptum sem eiga sér stað á Netinu og verða það því framleiðendur barnaklámefnis sem bera ábyrgð á efninu en ekki viðkomandi netveita. Ábyrgð netveitunnar mun hins vegar samkvæmt samkomulaginu felast í því að bera kennsl á efnið, skrá það og hindra aðgang að því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×