Innlent

Sat uppi í sófa þegar kveikt var í jeppanum

Um miðnætti í gærkvöldi var kveikt í glænýjum ellefu milljóna króna Volkswagen Toureg jeppa við Naustabryggju í Grafarvogi. Benjamín Þór Þorgrímsson eigandi bílsins segist hafa verið uppi í sófa þegar hann heyrði lætin. Bíllinn var keyrður 30 þúsund kílómetra.

„Ég sat bara uppi í sófa þegar ég heyrði lætin," segir Benjamín sem er tiltölulega nýbúinn að fá bílinn. Hann segir þetta hafa verið ellefu milljóna króna jeppa sem keyrður var 30 þúsund kílómetra. Bíllinn er gjörónýtur.

„Ég sá einhvern brúsa uppi á húddi á bílnum og svo var bara kveikt í," segir Benjamín sem þykir afar leitt hvernig fór fyrir bílnum.

Þessir bílar brunnu í Vogunum í desember á síðasta ári.

Vísir hefur áður skrifað fréttir um bíla sem brunnu í Vogum á Vatnsleysuströnd í desember á síðasta ári. Þeir bílar voru allir í eigu Ragnars Magnússonar fyrrum skemmtistaðaeiganda. Ragnar rak meðal annars Kaffi Óliver og fleiri staði.

Í mars kærði Ragnar síðan sjö menn sem hann sagði hafa fengið sig til að láta af hendi skemmtistaði sem hann átti um skeið í miðborg Reykjavíkur með hótunum um ofbeldi og líkamsmeiðingar. Benjamín Þór er einn þessara manna.

Aðspurður hvort hann gruni einhvern um að hafa kveikt í bílnum segir Benjamín aðeins einn aðila koma til greina.

Með fréttinni er myndskeið af brunanum í gærkvöldi sem Jón Stefán Björnsson tók.


Tengdar fréttir

Ragnar Magnússon átti alla bílana sem brunnu

Ragnar Magnússon, eigandi Kaffi Ólívers og fleiri skemmtistaða í Reykjavík átti alla bílana sem brunni í Vogum í nótt. Hann segist hafa orðið fyrir að minnsta kosti 70 milljóna króna tjóni en tveir bílanna voru safngripir. Hann segir einnig rangt að Annþór Karlsson hafi verið með bílana í sinni vörslu en bílarnir hafi verið á leiðinni í þrif hjá félaga Ragnars sem er með aðstöðu í Hafnargötu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×