Innlent

Sínum augum lítur hver silfrið

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/DV

Formenn stjórnmálaflokkanna eru gestir Egils Helgasonar í Silfri Egils í dag sem nú stendur yfir og er þar margt af setningi slegið. Rætt var um stöðu Íbúðalánasjóðs, framtíðarhorfur hans og hvort skynsamlegt sé að reka hann í núverandi mynd eður ei.

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, nefndi möguleikann á því að skipta sjóðnum í tvennt og yrði annar hlutinn þá lánastofnun fyrir þá sem stæðu sérstaklega illa að vígi fjárhagslega en hinn hlutinn hefði með höndum núverandi starfsemi.

„Guði sé lof að við höfum þó Íbúðalánasjóð og Sjálfstæðisflokknum tókst ekki að eyðileggja hann á síðasta kjörtímabili," sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, og bætti því við að ástandið á húsnæðismarkaði væri enn ískyggilegra en nú er nyti sjóðsins ekki við. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði engan ætla sér að einkavæða Íbúðalánasjóð.

Evrópusambandsaðild

Andrúmsloftið varð lævi blandið þegar Egill Helgason sneri tali gesta sinna að Evrópusambandinu og mögulegri aðild Íslands að því. Geir H. Haarde sagði það ótækt að þjóðin afsalaði sér með þeim hætti forræði yfir fiskimiðunum og umhverfismálum auk annars.

Þá sagði hann ESB-aðild hafa það í för með sér að Íslendingar glötuðu þeim áhrifum sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefði í för með sér auk þess að taka á sig þann mikla kostnað sem ESB-aðild fylgdi. Þetta réði íslenskt stjórnkerfi ekki við.

Þá beindi hann sjónum sínum að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu og sagði Íslendinga með slíkri aðild afsala sér vaxtaákvörðunarvaldi sínu í hendur Seðlabanka Evrópu sem miðaði ákvarðanir sínar við efnahag og þarfir stærstu ríkja bandalagsins.

Eigum mikla möguleika

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, tók nú til máls og sagði menn verða að setjast niður og skoða kostina og gallana við ESB-aðild. „Við eigum mikla möguleika í hinum stóra heimi í dag," sagði Guðni.

Steingrímur sagðist efa að sitjandi ríkisstjórn hefði pólitískt umboð til að hefja aðildarviðræður. ESB hafi ekki verið kosningamál í síðustu kosningum og umboð kjósenda væri einfaldlega ekki fyrir hendi. „Við skulum heldur snúa okkur að því að vinna okkur út úr núverandi ójafnvægi í efnahagsmálum," ályktaði Steingrímur.

„Þú ert mjög einmana við þetta borð," sagði Egill og beindi orðum sínum til Ingibjargar Sólrúnar. Vísaði hann til þess að Samfylkingin ein hefði afdráttarlausan vilja til að ganga í Evrópusambandið. Ingibjörg sagði það ekki rétt hjá Steingrími að stjórnina skorti umboð til aðildarviðræðna. Mjög skýrt umboð lægi einmitt fyrir frá kjósendum en það sýndu skoðanakannanir svo ekki yrði um villst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×