Lífið

Haddaway á leið til landsins

Næntís goðsögnin Haddaway spilar ásamt Curver og Kiki Ow á næntískvöldi á Nasa þann þriðja október næstkomandi.

Haddaway öðlaðist heimsfrægð með laginu "What is love" sem var gríðarlega vinsælt í Evrópu. Lagið náði meðal annars fyrsta sæti vinsældalista í Þýskalandi og öðru sæti í Bretlandi, þar sem 500 þúsund eintök seldust af smáskífunni. Í kjölfarið fylgdu nokkrir slagarar, en lítið hefur heyrst af kappanum hin síðari ár.

Það er að sjálfsögðu ekki ókeypis að fá kanónur á borð við Haddaway til landsins, og herma heimildir Vísis að hann rukki um eina milljón króna fyrir framkomuna. Þekktustu lög kappans eru sárafá, og því bíða margir spenntir eftir því að vita með hverju hann fyllir prógrammið sitt á Nasa.

Af nógu er að taka. Haddaway hefur langt því frá setið auðum höndum hin síðari ár, þó sköpunarverk hans hafi ekki endilega ratað inn á vinsældalista. Í fyrra kom smáskífan „Follow me" út, og í ár gaf hann út breiðskífuna Crucification, ásamt smáskífunni „I love the 90's" sem hann vann með Dr. Alban.

Skipuleggjandi tónleikanna, sem ekki vildi láta nafns síns getið, sagði í samtali við Vísi að fólk þyrfti ekki að óttast það að Haddaway tæki nýju lögin sín á Nasa. Samið hefði verið um hann um að hann tæki einungis lög frá tíunda áratugnum.

Hægt er að hlusta á lög kappans hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.