Innlent

Þungt hljóð í hjúkrunarfræðingum

SB skrifar
Á fundi hjúkrunarfræðinga og ríkissáttasemjara.
Á fundi hjúkrunarfræðinga og ríkissáttasemjara.

"Maður var kannski bjartsýnni en tilefni var til," segir Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður félags hjúkrunarfræðinga en ekki náðist sátt á fundi samninganefndar ríkisins og félagsins þrátt fyrir að vöfflur væru á borðum.

Hjúkrunarfræðingar hafa boðað yfirvinnubann á fimmtudaginn náist ekki samningar. Tíminn til að semja styttist því óðum og ljóst er að spenna er hlaupin í samningaviðræðurnar sem virtust ætla að blessast í gærkvöldi.

Þá sagðist Elsa vera bjartsýn á lausn. Í kvöld er þyngra í henni hljóðið.

"Ég viðurkenni það að ég var kannski bjartsýnni en tilefni gaf til. En við höldum allavega áfram. Það er annar fundur klukkan ellefu í fyrramálið þar sem við munum halda áfram þeirri vinnu sem við vorum í. Maður vonar að samningar náist," segir Elsa.

Á Vísi í gær var Elsa spurð út í það bakkelsi sem væri á borðum hjá fundi félagsins og ríkissáttasemjara og vildi hún þá lítið tjá sig í það. Í dag segir hún að bryddað hafi verið upp á nýjun.

"Já, það voru bakaðar vöfflur," segir hún og hlær en miðað við útkomuna er ljóst að vöfflurnar hafi ekki ráðið úrslitum. "Nei, ég var nú hissa á að lyktin virkaði ekki meira hvetjandi," segir Elsa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×