Innlent

Fasteignasala endurgreiðir umsýslugjald

Fasteignasala í Reykjavík hefur fallist á þá kröfu íbúðakaupenda að endurgreiða þeim svonefnt umsýslugjald sem þeim hafði verið gert að greiða sumarið 2004 við kaup á fasteign sem fasteignasalan hafði til sölu.

Neytendasamtökin segja á heimasíðu sinni að þetta sé að líkindum í fyrsta sinn sem mál hafði verið höfðað vegna þessa gjalds og fullnaðarsigur hafi náðst.

Hjón sem töldu sér óskylt að greiða umsýslugjaldið leituðu til Samkeppnisstofnunar vegna málsins árið 2004. Málið fluttist síðar til Neytendastofu sem í október 2006 komst að þeirri niðurstöðu að innheimta gjaldsins bryti í bága við lög. Því krafði lögmaður hjónanna fasteignasöluna í kjölfarið um endurgreiðslu gjaldsins, rúmar 30 þúsund krónur, en án árangurs.

Var þá ákveðið að leita til dómstóla og var aðalmeðferð fyrirhuguð í málinu nú í maí. Þegar að henni var komið féllst fasteignasalan hins vegar loks á kröfu hjónanna um endurgreiðslu umsýslugjaldsins auk dráttarvaxta. Með úrskurði héraðsdóms var fasteignasölunni jafnframt gert að greiða hjónunum 300 þúsund krónur í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×