Innlent

Nærri 800 þúsund gistinætur á hótelum fyrstu sjö mánuði ársins

MYND/Páll

Gistinætur á hótelum í júlí síðastliðnum reyndust tveimur prósentum fleiri en í sama mánuði í fyrra samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni. Þær voru nærri 202 þúsund í júlí í ár en nærri 197 þúsund í fyrra.

Athygli vekur að gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem gistinætur stóðu í stað á milli ára. Hlutfallslega fjölgaði gistinóttum mest á Austurlandi, um 10 prósent og á Suðurlandi um 8 prósent.

Þegar horft er til fyrstu sjö mánaða ársins reyndust gistinæturnar 786 þúsund á hótelum sem er 20 þúsundum og tæpum þremur prósentum fleiri en á sama tímabili í fyrra. Fjölgun varð á Suðurlandi um 13 prósent og á höfuðborgarsvæðinu um rúm tvö prósent milli ára. Fjölgun gistinátta fyrstu sjö mánuði ársins má aðallega rekja til Íslendinga, eða níu prósent. Gistinóttum útlendinga fjölgar um tæpt eitt prósent á milli ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×