Lífið

Frakkar og Ítalir hrifnir af Guðrúnu Evu Mínervudóttur

Nýlega hafa komið út þýðingar á verkum Guðrúnar Evu Mínervudóttur í Frakklandi og Ítalíu. Smásagnasafnið Á meðan hann horfir á þig ertu María mey kom út hjá Zulma-útgáfunni í Frakklandi og skáldsagan Yosoy hjá ítölsku útgáfunni Scritturapura og hafa þessar bækur vakið eftirtekt og ánægju gagnrýnenda ytra.

Í frétt frá útgefenda Guðrúnar Evu um málið segir að Frédéric Vitoux fjalli um franska þýðingu „Á meðan hann horfir á þig ertu María mey" í Le Nouvel Observateur 17. apríl og segir meðal annars að sögurnar líkist einna helst agnarsmáum og léttvægum brotum úr hversdagslífinu sem höfundurinn nái að hlaða merkingu og sveipa svo dulúðugri birtu að þeir minni helst á dagdrauma.

Vitoux telur einnig að þýðingin sé góð kynning á verkum Guðrúnar Evu sem fáir hafi haft tök á að kynnast fram að þessu

Ítalska þýðingin á Yosoy hefur hlotið mikið lof og það hefur verið fjallað um hana víða í fjölmiðlum. Gagnrýnandi Tifeo telur bókina „mjög metnaðarfullt verk, einstaklega vel skrifað, sem í fyrstu gæti virst torlesið en vald höfundar á textanum sé í raun slíkt að flókin hugtök skili sér til lesandans áreynslulaust í gegnum orðfagra og blæbrigðaríka frásögn".






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.