Innlent

Grunaðir brennumenn hafa játað

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Bruninn við Hvaleyrarvatn.
Bruninn við Hvaleyrarvatn. MYND/Stefán Karlsson

Þrír menn á tvítugsaldri, sem sætt hafa yfirheyrslum hjá svæðisstöð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í Hafnarfirði, játuðu fyrir skemmstu að hafa kveikt í á ræktunarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar við Hvaleyrarvatn í nótt.

Að sögn Sævars Guðmundssonar, aðalvarðstjóra á svæðisstöðinni í Hafnarfirði, hafa auk þess tveir játað að hafa staðið að bruna nóttina áður en alls voru sjö yfirheyrðir í því máli, sumir þó eingöngu sem vitni.

„Við töldum okkur eftir fyrra málið hafa náð utan um þetta þannig að seinna málið kom eins og köld vatnsgusa framan í okkur,“ sagði Sævar. Hann sagðist nokkuð viss um að lögregla hefði nú náð utan um þann hóp sem staðið hefur að íkveikjum síðustu daga.

„Þetta eru 10 sem við erum búnir að yfirheyra í þessum tveimur málum. Það gætu vissulega einhverjir staðið út af borðinu sem við eigum eftir að tala við, við verðum bara að setjast niður á morgun og skoða hvernig staðan er. Það er alveg eins líklegt að við þurfum að tala við fleiri og það eru aðilar sem við þurfum að tala við aftur úr fyrra málinu því við vitum að það sögðu okkur ekki allir satt og rétt,“ sagði Sævar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×