Innlent

Þingfundi frestað frestað fram á kvöld

MYND/GVA
Þingfundi, sem hófst klukkan tíu í morgun, lauk nú laust fyrir klukkan tvö eftir að fjallað hafði verið um tólf mál. Þingfundur er fyrirhugaður í kvöld en það eru almennar stjórnmálaumræður eða eldhúsdagur.

Umræðurnar verða sendar út í útvarpi og sjónvarpi. Þær fara þannig fram að hver þingflokkur fær 22 mínútur til umráða sem skiptast í þrjár umferðir, 10 mínútur í fyrstu umferð, 6 mínútur í annarri og 6 mínútur í síðustu umferð. Fyrst á mælendaskrá eru Vinstri - græn, þar á eftir kemur Sjálfstæðisflokkurinn, þá Framsóknarflokkur, Samfylkingin og loks Frjálslyndi flokkurinn.

Ræðumenn Vinstri grænna eru Ögmundur Jónasson, Árni Þór Sigurðsson og Þuríður Backman. Fyrir Sjáflstæðisflokkinn tala Geir H. Haarde forsætisráðherra, Guðfinna S. Bjarnadóttir og Kristján Þór Júlíusson og fyrir Framsóknarflokkinn Guðni Ágústsson, Siv Friðleifsdóttir og Höskuldur Þórhallsson.

Þau Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Einar Már Sigurðarson taka til máls fyrir Samfylkinguna og fyrir Frjálslynda flokkinn tala Guðjón A. Kristjánsson, Jón Magnússon og Grétar Mar Jónsson.

Þingfundur hefur svo verið boðaður á morgun klukkan 10 og má reikna með að það verði síðasti fundur vorsins því stefnt er að fresta þingi á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×