Innlent

Veitir styrki til þróunar á kattamat og stígvélaþurrkara

Byggðastofnun hefur veitt 69 verkefnum styrk til atvinnuþróunar og nýsköpunar á landsbyggðinni fyrir árin 2008 og 2009.

Úthlutunin er liður í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna skerðingar á þorskkvóta. Tvö hundruð milljónir voru til úthlutunar, 100 milljónir fyrir hvort ár. Alls bárust yfir 250 umsóknir um styrk upp á samtals um einn og hálfan milljarð.

Hæstu styrkina, fimm milljónir, hlutu þrjú fyrirtæki. Það eru Þóroddur vegna uppbyggingar seiðaeldisstöðvar í Tálknafirði, JE-Vélaverkstæði á Siglufirði vegna þróunar á nýrri gerð af snekkju og Vélfag á Ólafsfirði fyrir þróun og smíði roðvélar. Þá fengu ýmsir aðrir styrki, meðal annars til þróunar og markaðssetningar á íslenskum kattamat, íslensku parketi og vettlinga- og stígvélaþurrkara. Enn fremur eru nokkrar umsóknir til skoðunar.

Í tilkynningu frá Byggðastofnun segir að við mat á umsóknum hafi einkum tekið tillit til hlutfalls starfa í veiðum og vinnslu á viðkomandi svæði, nýsköpunargildis, gæða og mögulegs árangurs verkefna auk fjölda starfa sem þeim er ætlað að skapa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×