Innlent

Mun ekki setja fram skaðabótakröfu

Kjartan Ólafsson, fyrrverandi þingmaður.
Kjartan Ólafsson, fyrrverandi þingmaður.

Kjartan Ólafsson, fyrrverandi þingmaður og ritstjóri Þjóðviljans, á ekki von á því að hann setji fram skaðabótakröfu vegna símahlerana á heimili sínu.

„Ég hef síður gert ráð fyrir því. Það er alveg skýrt í mínum huga að ég mun ekki gera fjárkröfu og ráðlegg engum að gera fjárkröfu. Auðvitað kynni einhver að gera það en mér finnst það ekki vera við hæfi," segir Kjartan. Hann tekur fram að sér finnist ekki eðlilegt að hagnast á þessu máli.

Kjartan segir að aðalmálið sé að núverandi dómsmálaráðherra biðjist afsökunar fyrir hönd íslenska ríkisins. Hann segir að fólk eigi rétt á því og einkum þeir sem símarnir voru hleraðir heima hjá. „Auðvitað er afleitt að hlera á kontórnum hjá pólitískum andstæðingi, en mér finnst það minna brot en að ráðast inn á heimili hjá viðkomandi andstæðingi," segir Kjartan

Kjartan segist ekkert hafa heyrt í Birni Bjarnasyni í morgun og veit því ekki um viðbrögð hans. Hann segir ráðherrann vera tímabundinn mann en hlakkar til að vita hvort að hann sýni viðbrögð á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×