Innlent

Lántaka er herkostnaður stóriðju og skattalækkana

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, sagði 500 milljarða króna lán sem lagt er til að ríkissjóður megi taka herkostnað stóriðju, skattalækkana og útrásarævintýra síðustu ára. Hann benti jafnframt á að Vinstri - græn hefðu ítrekað kallað eftir aðgerðum í efnahagsmálum.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra mælti á Alþingi í dag fyrir frumvarpi um heimild ríkissjóðs til þess að taka að allt að 500 milljarða króna lán til þess að bregðast við erfiðri stöðu á fjármálamörkuðum og styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans. Frumvarpið var lagt fram í gærkvöld og þurfti að veita afbrigði til þess að geta tekið það fyrir á þingi í morgun. Fram kom í máli Árna að ekki lægi fyrir hvernig heimildin yrði nýtt en það réðist af aðstæðum.

Hagstjórnarmistök reyndust dýr

Steingrímur gagnrýndi ræðu Árna og sagði hana bágborna og þróttlitla. Benti hann á að lánið væri það stærsta í Íslandssögunni og það væri afleiðing af stóriðju, skattalækkunum og útrásarævintýrum síðustu ára. Hagstjórnarmistök ríkisstjórnanna hefðu reynst dýr. Þá spurði hann við hverju mætti búast í afkomu ríkissjóðs með láninu og taldi að herkostnaðurinn myndi nema milljörðum króna á tímum þar sem stefndi í halla á ríkissjóði. Þá gagnrýndi hann þær ákvarðanir stjórnvalda að bíða með aðgerðir og sagði andvaraleysi og ráðleysi ríkisstjórnarinnar reynast rosalega dýrt. Það væru fjölskyldurnar í landinu og hið almenna atvinnulíf sem greiddu herkostnaðinn.

Þá benti Steingrímur á verðbólga hér væri 12 prósent á ársgrundvelli og ef fasteignaverð væri ekki farið að lækka væri verðbólga síðustu þriggja mánaða á fjórða tug prósenta. Sagði hann herkostnaðinn liggja í verðbólgunni og hæstu stýrivöxtum í heimi. Benti hann á að 18 ára verðbólgumet hefði borið upp á eins árs afmæli ríkisstjórnarinnar. „Það var lítið talað um það á afmælisdaginn," sagði Steingrímur.

Þá lagði hann út af orðum Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra um eftiráspekinga og spurði hvort Davíð ætti þar við sjálfan sig. Benti hann á að Davíð bæri að hluta til ábyrgð á ástandinu enda hefði hann setið í ríkisstjórn ekki fyrir svo löngu. Þá sagði hann að áranna 2004-2008 yrði minnst sem áranna þar sem þjóarskútunni hefði verið kafsiglt með erlendum skuldum.

Minnti hann á að einn flokkur hefði allt frá árinu 2005 varað við vaxandi erlendri skuldasöfnun og hefði árlega lagt fram hugmyndir í efnahagsmálum. Á það hefði ekki verið hlustað og vandinn hefði versnað. Nú þyrftu menn að horfast í augu við veruleikann og viðurkenna mistök sín og læra af þeim.

Framsókn styður frumvarpið

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði að flokkurinn myndi styðja frumvarpið en að hann hefði viljað að aðgerðirnar hefðu komið fyrr. Hún benti á að samdráttur yrði á næstunni í þjóðfélaginu sem leiddi til minni kaupmáttar og ef ekki yrði brugðist við því með ákveðnum hætti gæti skollið á djúp efnahagskreppa. Sagði hún hina erlendu lántöku nauðsynlega til það auka trúverðugleika íslensks efnahags- og fjármálalífs.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði að frjálslyndir styddu frumvarpið. Verkefnið væri að ná niður verðbólgunni og styrkja efnahagskerfið og þetta frumvarp væri þáttur í því. Þá þyrftu þingmenn að taka höndum saman um að tryggja atvinnu í landinu. Það væri engin hefð fyrir því að Íslendingar byggju við mikið og langvarandi atvinnuleysi og slíkt myndi kollvarpa mörgum fjölskyldum.

Herkostnaður við að reka sjálfstæðan gjaldmiðil

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, benti á að ráðist væri í lántökuna vegna alþjóðlegrar lánakreppu, það er skorts á lánsfé sem hefði komið við íslenska banka meðal annars. Þá byggju Íslendingar við þann vanda að vera með einn minnsta gjaldmiðil í hinum vestræna heimi. Við þessar aðstæður þyrfti öflugan viðbúnað og ríkisstjórnin væri með hann nú.

Stjórnvöld hefðu gert rétt með að bíða með lántöku. Lánakjör nú væru betri en fyrir nokkrum vikum og íslensk heimili og atvinnulíf hefðu þurft að gjalda það dýru verði ef farið hefði verið í lántökur fyrr.

Árni sagði lánið ekki herkostnað vegna hagstjórnarmistaka heldur herkostnaður af því að reka sjálfstæðan gjaldmiðil. Þetta væri reikningur sem við þyrftum að borga af því við værum með sjálfstæðan gjaldmiðil. Það þyrfti að taka þetta inn í þegar metið væri hvort það borgaði sig að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil.

Sagðist Árni telja að reynsla síðustu mánaða sýndi að núverandi fyrirkomulag gjaldmiðilsmála væri ekki gott til frambúðar. Fagnaði hann jafnfram boðaðri úttekt forsætisráðherra á peningamálastefnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×