Innlent

Endanlega búið að eyðileggja gjafsóknarúrræðið

Það er endanlega búið að eyðileggja gjafsóknarúrræðið, segir Anna Guðný Júlíusdóttir, héraðsdómslögmaður. Dómsmálaráðherra breytti nýverið skilyrðum til gjafsóknar, en ráðuneytið segir aðgengi efnalítilla einstaklinga að dómstólum ekki hafa verið skert.

Í byrjun árs setti Björn Bjarnason dómsmálaráðherra nýja reglugerð um gjafsóknir þar sem fram kemur að ekki megi veita fólki gjafsókn ef það hefur meira en 1600 þúsund krónur í árstekjur, sem eru rétt rúmlega 130 þúsund krónur í mánaðarlaun. Samanlagðar tekjur hjóna eða fólks í sambúð mega ekki verið meira en tvær og hálf milljón, sem gerir um 104 þúsund krónur í mánaðarlaun á hvorn aðila.

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður og Atli Gíslason, þingmaður Vinstri - grænna, hafa gagnrýnt þessa breytingu. Ragnar hefur sagt að tekjumörkin séu út í hött og Atli að flestar málsóknir séu ofviða fólki sem hefur undir 300 þúsund krónum í mánaðarlaun.

Þriðji lögmaðurinn bætist í hóp gagnrýnenda í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar segir Anna Guðný Júlíusdóttir héraðsdómslögmaður að henni sé ofboðið. Það sé mikið réttlætismál að gjafsókn sé raunverulegt úrræði svo fólk geti fengið aðstoð lögmanns við að gæta hagsmuna sinna fyrir dómstólum. Með þessum tekjumörkum sé dómsmálaráðherra endanlega búinn að eyðilegga þetta úrræði nema að nafninu til.

Hún segir alltof marga lenda í þeirri stöðu að þurfa að leita réttar síns en neyðist til að hætta við vegna kostnaðar. Það sé þá ekki lengur orðin spurning um hvað sé lagalega rétt og rangt heldur því hver hafi efni á að gæta hagsmuna sinna. Anna Guðný sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að hún hefði unnið að gjafsóknarmálum og langflest hafi þau verið forsjármál. Hún telur það ansi hart þegar svo er komið að fólk veigri sér við að gæta hagsmuna barna sinna vegna hættunnar á að málskostnaður verði þeim ofviða.

Í tilkynningu sem birtist á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins, vegna fréttar 24 stunda um málið um helgina segir að tekjuviðmiðið í nýju reglugerðinni sé hærra en í þeirri gömlu. Auk þess segir að tekjumörkin séu ekki ófrávíkjanleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×