Innlent

Fresta ákvörðun um Droplaugarstaði

Velferðarráð Reykjavíkurborgar ákvað á fundi sínum í dag að fresta ákvörðun um hvort bjóða eigi út rekstur á hjúkrunarhemilinu Droplaugarstöðum. Minnihlutinn í ráðinu sakar meirihlutann um að halda stofnuninni í fjársvelti.

Meirihlutinn í velferðarráði Reykjavíkur vill láta bjóða út rekstur Droplaugarstaða. Tillaga þessa efnis var lögð fyrir ráðið í dag en afgreiðslu var frestað að beiðni minnihlutans.

Málið verður aftur tekið fyrir í haust.

Hjúkrunarheimilið hefur verið rekið með halla undanfarin ár og í fyrra nam hallareksturinn 38 milljónum króna.

Jórunn Frímannsdóttir, formaður velferðarráðs, sagði í samtali við fréttastofu rétt að reyna á hvort einkaaðilar séu tilbúnir að reka heimilið fyrir núverandi daggjöld.

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstri grænna, telur lausnina hins vegar felast í hærri daggjöldum og halda rekstrinum að öðru leyti óbreyttum. Hann segir að hvorki einkaaðilar né Reykjavíkurborg geta rekið stofnunina á núverandi daggjöldum.

Þorleifur bendir á að einkarekin hjúkrunarheimili fái mun hærri daggjöld en þau sem eru rekin af opinberum aðilum og talar um fjársvelti í því samhengi.

Forstöðumaður Droplaugarstaða telur að ekki vanti mikið upp á til að snúa rekstrinum við.

 

 

 












Fleiri fréttir

Sjá meira


×