Innlent

Fíkniefni við girðinguna á Litla-Hrauni

Fíkniefnahundur fangelsisins á Litla-Hrauni fann í vikunni bakpoka utan girðingar fangelsisins. Í tilkynningu frá lögreglunni á Selfossi segir að í  bakpokanum hafi fundist tveir litlir plastpokar með hvítu efni. „Við prófun kom í ljós að í öðrum pokanum hafi verið amfetamín en íblöndunarefni í hinum.  Engin skýring er á tilurð bakpokans á þessum stað en grunur er um að hann hafi átt að berast inn fyrir girðingu með einhverjum hætti," segir einnig.

Þá var brotist inn í ísbíl frá Kjörís aðfararnótt fimmtudags þar sem hann stóð á athafnasvæði fyrirtækisins við Austurmörk í Hveragerði. Hurð var skrúfuð af bifreiðinni og einhverju af ís stolið. „Mest tjón varð þó vegna íss sem bráðnaði er hitastigið féll í geymslurýminu. Talið er að tjónið geti numið hátt í 500 þúsund krónum," segir í tilkynningu frá lögreglu sem biður þá sem veitt geta upplýsingar um málið að hafa samband í síma 480 1010.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×