Innlent

Lögreglan æfir forgangsakstur

Borgarbúar hafa í morgun séð nokkra lögreglubíla aka um götur Reykjavíkur með blikkandi ljós og vælandi sírenur. Ekki er um hættuástand að ræða heldur æfa lögreglumenn sig nú í forgangsakstri.

Námskeiðið stendur út þessa viku en hófst í síðustu viku og er um mikinn verklegan hluta að ræða. „Það er sérstaklega verið að þjálfa nokkra lykilmenn hjá okkur sem síðan munu sjá um þjálfun í akstri ökutækja," segir Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskólans.

Hann segir ákveðinn hóp hafa verið valinn víðs vegar af landinu til þess að taka þátt í námskeiðinu. „Við eigum samstarf við norska lögregluskólann og hingað eru komnir menn sem eru eingöngu í því að leiðbeina í akstri í Noregi," segir Arnar.

Þjálfunin er mikið verkleg eins og fyrr segir og æfa menn jafnt í þéttbýli sem í dreifbýli. „Þeir hafa verið nokkuð í umferðinni í síðustu viku og munu vera út þessa. Við erum að styrkja okkur og bæta hæfni manna til þess að takast á við þessi ökutæki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×