Innlent

Rauði krossinn sendir 6 milljónir vegna átakanna í Georgíu

Rússneskir hermenn í Georgíu.
Rússneskir hermenn í Georgíu.

Rauði kross Íslands hefur sent 6 milljónir króna í neyðarbeiðni Alþjóða Rauða krossins vegna aðgerða í kjölfar átakanna í Georgíu. Neyðarbeiðnin hljóðar upp á 600 milljónir íslenskra króna (8 milljónir svissneskra franka) og verður fénu varið til að aðstoða tugþúsundir manna sem hafa orðið verst úti í átökunum milli herliða Georgíu, Suður-Ossetíu og Rússlands.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum. Þar segir ennfremur:

„Neyðarbeiðnin er send út til að tryggja brýna læknisþjónustu fyrir særða, og eins að nauðsynleg hjálpargögn berist um 60.000 manns sem er á vergangi í Suður-Ossetíu eða hefur leitað hælis í Georgíu og í Rússlandi. Þá mun Alþjóða Rauði krossinn einnig efla eftirlit með því að stríðandi aðilar komi fram við fanga í samræmi við alþjóðleg mannúðarlög.

Alþjóða Rauði krossinn hefur þegar sent teymi af neyðarskurðlæknum til Georgíu, og Rauði krossinn í Noregi mun setja upp neyðarspítala í borginni Gori við landamæri Suður-Ossetíuhéraðs. Rauði kross Íslands er samningsbundinn samstarfsaðili norska Rauða krossins og hafa sérþjálfaðir sendifulltrúar félagsins í neyðarskurðlækningum þegar verið settir í viðbragðsstöðu.

"Það er brýn þörf á að aðstoð berist sem fyrst þó svo að vopnahléið haldist, og sérstaklega á sviði heilbrigðisþjónustu þar sem fá eða engin sjúkrahús á svæðinu eru í stakk búin til að meðhöndla særða og sjúka við þessar aðstæður," segir Helga Þórólfsdóttir, sviðstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins, sem var sendifulltrúi í Georgíu 1997-1998 á vegum Alþjóða Rauða krossins (ICRC) og gjörþekkir því aðstæður þar.

"Það er mikil þörf á sérhæfðu starfsfólki á vettvangi, og mjög líklegt að sendifulltrúar Rauða kross Íslands verði fengnir til starfa á næstu dögum eða vikum. Við munum svo meta þörfina á frekari aðstoð eftir því sem meiri upplýsingar berast um ástandið frá Rauða krossinum," bætir Helga við."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×