Innlent

Sigurður G: Ríkisvæðing Glitnis stenst ekki lög

Sigurður G. Guðjónsson.
Sigurður G. Guðjónsson.

Sigurður G. Guðjónsson, lögfræðingur og stjórnarmaður í Glitni, segir að yfirtaka ríkisins á 75% hlut í Glitni standist ekki þau lög sem gilda um Seðlabankann og greiðslur úr ríkissjóði. Þetta kom fram í viðtali við Sigurð í þættinum Reykjavík síðdegis fyrr í dag.

Sigurður segir að hvorki Seðlabankinn eða ríkisstjórnin hafi leitað annarra leiða en sú sem varð fyrir valinu.

,,Mönnum var ekki einu sinni rétt blað heldur varð að nema það af orðum fyrrverandi forsætisráðherra hvaða skilyrði fylgdu því að Seðlabankinn myndi leggja til nýtt hlutafé í Glitnibanka," segir Sigurður og bætir við að lögfræðingar hafi þurft að bera stjórnarmönnum í Glitni þessi skilaboð og skrifa þau niður svo hægt væri að senda skjal til baka með þeim orðum sem seðlabankastjóri hafi haft frammi.

,,Þetta eru gjörsamlega forkastanleg vinnubrögð og þau eru ekki í neinum takt við þau lög sem gilda um Seðlbankann eða um greiðslur úr ríkissjóði Íslands," segir Sigurður.

Ákvörðun Seðlabankans er vanhugsuð og illa framkvæmd aðgerð, að mati Sigurður. ,,Ríkisstjórnin og Alþingi virðast eiga að druslast með. Valdið er ekki lengur hjá Alþingi eða ríkisstjórn heldur er það komið upp í Seðlabanka og við það geri ég alvarlegar athugasemdir."

Sigurður segir að stjórnmálamenn og viðskiptalífið verði að koma saman og finna leiðir til að halda atvinnustarfsemi gangandi á næstu mánuðum.

Þá telur Sigurður fráleitt að verið sé að ræða um sameiningu Glitnis og Landsbankans en þreifingar þess efnis hafa átt sér stað. Slíkt hafi átt að gera fyrir helgi og um helgina. Sigurður bendir auk þess á að ríkið er enn ekki orðið eigandi 75% hlutar í Glitni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×