Innlent

Hætta á meiri einsleitni á fjölmiðlamarkaði

MYND/E.Ól

Birgir Guðmundsson, lektor við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri, telur æskilegast að einhvers konar veggir verði á milli ritstjórna fari svo að Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, kaupi Fréttablaðið. Að öðrum kosti sé hætta á meiri einsleitni í ritstjórnarlegu tilliti.

Viðskiptablaðið greinir frá því í dag að Fréttablaðið fari undir Árvakur samkvæmt samkomulagi eigenda Árvakurs og 365 sem verið sé að vinna að. Verði af sameiningunni verður til risi á dagblaðamarkaði.

Birgir Guðmundsson segir að rekstrarlega geti þetta komið sér vel fyrir blöðin sem eigi undir högg að sækja við núverandi aðstæður. Þau geti náð fram hagræðingu í dreifingu og prenti. „En maður hlýtur líka að spyrja sig hvort þetta hafi víðtækari áhrif og hversu víðtækt samstarf blaðanna verður. Það er áhyggjuefni út frá frjálsri fjölmiðlun og fjölbreytni ef samvinnan gengi svo langt að það yrði minni fjölbreytni í ritstjórnarlegu tillti. Það yrði því æskilegast að það yrðu einhvers konar veggir á milli ritstjórna þannig að hagræðingin næði ekki til efnistaka," segir Birgir.

Birgir bendir á að blaðamannasamtök erlendis hafi lýst yfir áhyggjum af því að vaxandi arðsemiskrafa á fjölmiðlamarkaði sé farin að hafa áhrif á efni og efnistök. Það leiði til þess að blaðamennskan verði einhæfari og sama nálgun verði á hinum ólíku málum. Þá hafi blaðamannasamtök einnig áhyggjur af því að hagræðingarkrafan leiði til þess að reyndum blaðamönnum sé sagt upp og stólað sé meira á lausamenn.

Reikna má með því að ef af samrunanum verður komi hann til kasta samkeppnisyfirvalda. „Þetta er eitt af því sem verður áhugavert að fylgjast með, sérstaklega í ljósi umræðunnar um fjölmiðlafrumvarp," segir Birgir og bendir á að nefnd sé enn að störfum við að undirbúa slíkt frumvarp. Þar hafi verið kafli um samkeppnismál. Birgir telur líklegt að Samkeppniseftirlitið geri einhverjar athugasemdir við samrunann og takmarki samstarf blaðanna á einhvern hátt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×