Innlent

Óásættanlegt að gangandi tímasprengjur leiki lausum hala

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir ófyrirgefanlegt að ekki séu til ákvæði í lögum sem geri mögulegt að fylgst sé með kynferðisbrotamönnum eftir afplánun dóms. Ekki sé ásættanlegt að gangandi tímasprengjur leiki lausum hala án þess að brugðist sé við á einhvern hátt.

Talið er að ein af hverjum fimm stúlkum og einn af hverjum tíu drengjum verði fyrir kynferðisofbeldi fyrir 18 aldur. Á rúmlega 20 árum hafa 153 dómar verið felldir yfir mönnum sem framið hafa kynferðisbrot gegn börnum, en mörg mál koma aldrei fram í dagsljósið.

Eftir afplánun fara brotamenn aftur út í samfélagið, fæstir vita um afdrif þeirra, en fullyrða má að fáir vilji hafa þá í nágrenni við sig - hvað þá börn sín.

Bragi segir fæsta kynferðisbrotamenn líklega til að endurtaka brot sín, þó sé lítill hluti haldinn því sem kallað er barnagirnd. Engin úrræði séu fyrir hendi til að bregðast við þeirri ógn sem börnum stendur af þeim, en ekki þyrfti að gera miklar breytingar á lagaákvæðum sem myndi gera það kleift að unnt væri að hafa vöktun og eftirlit með þessum mönnum ásamt því að veita þeim stuðning og viðeigandi aðstoð sem væri til þess fallinn að draga úr líkum þess að þeir endurtækju brot sín. Forstjórinn segir umræðuna hafa staðið yfir ansi lengi og í raun ófyrirgefanlegt að ekkert hafi hreyfst í málinu.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, ber ábyrgð á málaflokknum, en starfshópur á vegum dómsmálaráðuneytisins vinnur nú að heildarendurskoðun hegningarlaganna og áætlað er að hann skili tillögum í næsta mánuði. Forvitnilegt verður að sjá hvort þar verður nýtt ákvæði er lýtur að kynferðisbrotamönnum.

Nánar verður fjallað um málefni kynferðisafbrotamanna í fréttum Stöðvar 2 annað kvöld.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×