Innlent

Hið eina rétta í stöðunni miðað við aðstæður

MYND/GVA

Þingflokkur Samfylkingarinnar hittist í gærmorgun til þess að ræða yfirtöku ríkisins á Glitni. Að sögn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, varaformanns þingflokks Samfylkingarinnar, gerðu fulltrúar flokksins sem komu að málinu, Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, grein fyrir aðdraganda þess.

Fundað var í tvo tíma og tóku allir þingmenn til máls að sögn Steinunnar, „Menn féllust á það að miðað við aðstæður þá hefði þetta verið hið eina rétta í stöðunni. Okkar hlutverk er að hugsa um almannahag og það að halda fjármálamörkuðum gangandi," segir Steinunn Valdís um yfirtökuna.

Aðspurð hvort skiptar skoðanir hafi verið um málið í þingflokknum segir Steinunn Valdís að þetta séu kannski ekki aðgerðir sem farið sé í undir venjulegum kringumstæðum en menn hafi reifað sjónarmið sín á fundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×