Innlent

Aukin aðsókn í störf á sambýlum og frístundaheimilum

Nanna Hlín Halldórsdóttir skrifar
Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík.
Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík.

Það hefur varla farið framhjá mörgum að atvinnumarkaðurinn hefur breyst umtalsvert í ár. Síðustu ár hefur reynst erfitt að manna störf á vegum ríkis og sveitafélaga, til að mynda í þjónustu við fatlaða, leikskólum og frístundaheimilum. Vegna samdráttar stóru fyrirtækjanna upp á síðkastið hefur þó reynst breyting þar á. Bæði Guðný Anna Arnórsdóttir starfsmannastjóri Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík sem og Steingerður Kristjánsdóttir sem sér um starfsmannamál fyrir frístundaheimili í Reykjavík sjá aukningu í aðsókn í störf hjá þeim.

Guðný Anna sagði í samtali við Vísi að jákvæð þróun hafi verið upp á síðkastið í starfsmannamálum hjá SSR. Nú væri aðeins 1,3% vöntun á starfsfólki hjá þeim á meðan á sama tíma í fyrra hafi verið um 3,8% vöntun. ,,Þetta þýðir að nú er aðeins ómönnuð 6 stöðugildi af 400 sem telst fullmannað" sagði Guðný Anna. Í janúar 2008 voru ómönnuð störf um 8%, þannig að breytingin er umtalsverð. Starfsmannavelta er einnig mun minni nú en áður og hefur farið hraðminnkandi fyrstu 5 mánuði þessa árs.

Steingerður tjáði Vísi að nú sé í fyrsta sinn opið á frístundaheimilunum yfir sumartímann og að allar stöður á þeim séu fullmannaðar og góð ásókn hafi verið í störf. Hún nefndi umsóknir fyrir störf í haust væru þegar farnar að berast og hún sæi meiri áhuga á þeim störfum en nú en síðustu ár. Hún taldi þó ekki líklegt að bankastarfsmenn og flugfreyjur færu að sækjast í þessi störf en útilokaði ekki að uppsagnir í stóru fyrirtækjunum gætu orsakað einhverjar tilfærslur á atvinnumarkaðinum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×