Erlent

Evrópusambandstríó á fund Medvedevs

MYND/AP

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, heldur í dag til Rússlands þar sem hann hyggst ræða við starfsbróður sinn, Dmítrí Medvedev, um málefni Georgíu. Með Sarkozy í för verða þeir Javier Solana, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, og Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar sambandsins.

Þremenningarnir munu reyna að sannfæra Medvedev um að draga herlið Rússa út úr Georgíu en þar hefur það verið frá því að til átaka kom á milli Georgíumanna og Rússa í ágústmánuði vegna Suður-Ossetíu. Rússar hafa hingað til ekki viljað ljá máls á því og segjast þurfa að vernda rússneska borgara í Suður-Ossetíu.

Georgíumenn saka hins vegar Rússa um þjóðernishreinsanir í héraðinu og hafa leitað til Alþjóðadómstólsins í Haag með málið. Eftir að hafa fundað með Medvedev fara þremenningarnir til Tblisi þar sem þeir ræða við Saakashvili, forseta Georgíu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×