Innlent

Hæstiréttur fellir úr gildi framsalsúrskurð

MYND/GVA

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi þann úrskurð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að framselja pólskan karlmann til síns heima þar sem hann er grunaður um þjófnaðarbrot. Meirihluti dómsins gerir það þar sem maðurinn naut ekki aðstoðar lögmanns í málinu.

Dómsmálaráðuneytinu barst í fyrra beiðni frá pólskum dómsmálayfirvöldum um að maðurinn yrði framseldur. Hann hefur verið ákærður í heimalandi sínu fyrir að hafa brotist inn í hús og stolið þaðan tölvu og tölvubúnaði fyrir um hundrað þúsund íslenskar krónur.

Dómsmálaráðuneytið komst að því í apríl að framselja skyldi manninn og þá ákvörðun staðfesti héraðsdómur. Hæstiréttur felldi hana hins vegar út gildi. Tveir af þremur dómurum í málinu töldu að þar sem hann hefði ekki notið aðstoðar lögmanns við fyrirtöku málsins hjá lögreglu hefðu óskir hans um synjun á framsali ekki verið skráðar og því ekki komið til úrlausnar hjá ráðuneytinu. Þar sem ekki væri hægt að útiloka að þetta hefði haft áhrif á niðurstöðu málsins yrði ekki hjá því komist að ógilda úrskurð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Einn dómari, Jón Steinar Gunnlaugsson, skilaði séráliti. Hann vildi einnig fella úrskurð dómsmálaráðuneytisins úr gildi en á öðrum forsendum. Benti hann á að samkvæmt lögum um framsal sakamanna er framsal aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað eins árs fangelsi samkvæmt íslenskum lögum. Sagði Jón Steinar að ákvörðun ráðuneytisins væri afar íþyngjandi og brotið teldist minni háttar þjófnaðarbrot sem hér á landi myndi varða mun vægari refsingu en eins árs fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×