Innlent

Atvinnuleysi mun aukast hratt á næstu mánuðum

Allt bendir til þess að atvinnuleysi muni aukast hratt á næstu mánuðum. Þrjú fyrirtæki tilkynntu um fjöldauppsagnir í gær

Icelandic Ground Service á Keflavíkurflugvelli ætlar að segja upp 20 starfsmönnum um næstu mánaðamót. Fram kom í fréttum stöðvar tvö í gær að ástæða uppsagnarinnar sé verkefnaskortur. Þá tilkynnti Vodafone ennfremur um uppsagnir tuttugu starfsmanna í gær og ÞG verktakar ætla að segja upp tugum manna um næstu mánaðamót.

Hátt í þúsund manns hafa misst vinnuna í hópuuppsögnum í sumar og vel á annað þúsund manns í byggingariðnaði hafa misst vinnuna á árinu. Vænta má að þessar uppsagnir fari að gæta í atvinnuleysistölum um næstu mánaðamót.

Þó atvinnuleysi hafi aðeins aukist lítillega á undanförnum mánuðum bendir allt til þess að ástandi eigi eftir versna á næstunni. Atvinnuleysi var 1,2 prósent í síðasta mánuði sem jafngildir því að tvö þúsund og eitt hundrað manns hafi að meðaltali verið á atvinnuleysisskrá í mánuðinum.

Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi verði 1,2 til 1,5 prósent í september.

Alþýðusamband Íslands gerir ráð fyrir því að atvinnuleysi muni aukast hratt í vetur og þá spáir greiningardeild Landsbankans því að atvinnuleysi nái hámarki í ársbyrjun 2011 og verði þá 4 prósent.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×