Innlent

Tóm tjara að fjármálaóreiða hafi einkennt stjórnartíð Ólafs Ragnars

Einar Karl Haraldsson, aðstoðarmaður iðnaðarráðherra, var á sínum tíma framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins þegar Ólafur Ragnar Grímsson var þar formaður. Hann segir af og frá að fjármálaóreiða hafi einkennt stjórnartíð Ólafs eins og kemur fram í dagbók Matthíasar Johannessen, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins.

Matthías rekur samtal sem hann átti við Svavar Gestsson árið 1998 þar sem fram kom að Ólafur væri með kreditkort frá flokknum sem hann „notaði óspart" auk þess sem skuldir flokksins hafi verið rúmar 50 milljónir þegar Margrét Frímannsdóttir tók við af Ólafi.

Einar segir að eins og í öðrum flokkum og félagsmálahreyfingum á þessum tíma hafi verið lausatök í bókhaldinu og að sem betur fer hafi verið gerð bragarbót á því síðustu árin. „En ég fullyrði að á engum tímapunkti var nokkuð í fjármálum Alþýðubandalagsins meðan ég fékkst við þau sem mætti telja óviðurkvæmileg á nokkurn hátt."

Einar segir að bókhaldið hafi verið ófullkomið og þar hafi verið að finna gamlar skekkjur sem rekja mátti til ákvarðana framkvæmdastjórnar á hverjum tíma. „En það er bara tóm tjara að einhver fjármálaóreiða hafi einkennt stjórnartíð Ólafs Ragnars. En þetta mál sýnir kannski illindin sem voru í þessum flokki á þessum árum og nauðsyn þess að leggja hann niður," segir Einar Karl, sem var framkvæmdastjóri flokksins í formannsstíð Ólafs Ragnars árin 1993 til 1996. Hann segist ekki kannast við að Ólafur hafi verið með kreditkort frá flokknum eins og Styrmir hefur eftir Svavari.

„Aldrei hefði mér nú dottið í hug að tala við Matthías Johannesson um fjármál Alþýðubandalagsins og met ég hann þó mikils," segir Einar Karl að lokum.










Tengdar fréttir

Alþýðubandalagið eyddi um efni fram

Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, staðfestir í samtali við Vísi að þegar hún hafi tekið við formennsku í flokknum hafi fjárhagsstaða hans verið einkar slæm og skuldir numið yfir fimmtíu milljónum króna. Hún neitar hins vegar fyrir að fyrirrennari hennar í formennskustólnum, Ólafur Ragnar Grímsson, hafi í kjölfarið tekið lán upp á annað hundrað milljónir króna til þess að greiða skuldir flokksins, meðal annars vegna óhóflegrar einkanotkunar hans á Visa-korti flokksins, eins og haldið er fram í dagbókarfærslum Matthíasar Johannessen.

Dagbók Matthíasar: Forsetinn notaði kreditkort Alþýðubandalagsins

Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, birti um helgina enn eitt brotið úr dagbókum sínum sem hann hélt á meðan hann var ritstjóri. Þar kemur fram í samtali við Svavar Gestsson að Ólafur Ragnar Grímsson, núverandi forseti og fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, hafi verið með kreditkort frá flokknum og notað það óspart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×