Innlent

Fjöldi fólks gæti orðið gjaldþrota ef gengið helst áfram hátt

Gengisvísitala krónunnar komst í fyrsta sinn yfir tvö hundruð stig í morgun en hún hefur veikst yfir tvö og hálft prósent það sem af er degi. Dósent í hagfræði segir að ef ástandið haldist svona lengi þá geti það þýtt fjölda gjaldþrota hjá þeim sem eru með lán í erlendri mynt.

Gengi krónunnar hefur veikst um yfir átta prósent síðastliðna viku og nú skömmu fyrir hádegi kostaði evran rúmar 153 krónur og bandaríkjaalur 108 krónur. Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði, segir erfitt að segja til um hvernig gengi krónunnar muni þróast á næstunni. „Það eina sem er vitað er að það er mikil óviss.a Það verða án efa miklar sveiflur á gengi krónunnar, það er alls ekki útilokað að hún lækki talsvert í viðbót en þó leyfir maður sér að vera nokkuð bjartsýnn þegar til lengdar lætur því að gengið er núna orðið það lágt að það hlýtur fyrr eða síðar að fara að hækka," segir Gylfi.

Hann segir enn fremur að raungengið sé orðið lægra en góðu hófi gegni. „Einhvern tíma mun það hressast en til þess að það gerist þá þarf erlent fé að fara að streyma inn og menn að vilja kaupa krónur fyrir erlent fé og því miður virðist það ekki ætla gerast nema það róist alþjóðafjármálamarkaðir og opnist aftur fyrir Ísland og svo bara almennt að einhverjir fái trú á því að króna sé komin eins langt og getur farið," segir Gylfi enn fremur.

Aðspurður hvort menn sjái fram á gjaldþrot fjölda fólks sem hafi tekið myntkörfulán ef áframhald verði á segir Gylfi að svo geti farið og þá muni kaupmáttur rýrna allverulega, verðbólga fara úr böndunum og ýmislegt fleira. „Þannig að þetta eru alls ekki góðar fréttir, þetta eru afleitar fréttir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×