Innlent

Býst við að Landspítaladeilan leysist fyrir kvöld

Geir H. Haarde lýsti því yfir á Alþingi í dag að hann ætti von á deila hjúkrunarfræðinga og geislafræðinga við stjórnendur Lanspítalans yrði leyst áður en dagurinn yrði að kveldi kominn. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns Vinstri - grænna.

Hún benti á að um 100 hjúkrunarfræðingar og um 50 geislafræðingar hygðust hætta störfum þann 1. maí og við það skapaðist neyðarástand á Landspítalanum. Afleiðingarnar gætu orðið hörmulegar og öryggi sjúklinga væri stefnt í voða. Sagði hún lítið að gerast og spurði ráðherra hvað ríkisstjórnin hygðist geta til þess að afstýra ástandinu.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagðist gera sér vonir um að úr málinu rættist áður en langt um liði. Álfheiður innti ráðherra eftir því aftur hvað væri að gerast í stöðunni og spurði á hverju steytti. Ráðherra svaraði því til að hann teldi að viðunandi niðurstaðan næðist áður en dagur væri að kveldi kominn.

Við þetta er að bæta að starfandi forstjórar Landspítalans hafa boðað til blaðamannafundar á spítalanum klukkan fjögur í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×