Erlent

1800 milljarðar gufa upp í Írak

Halliburton, félag sem Dick Cheney vann hjá áður en hann varð varaforseti, fékk feitan samning í Írak.
Halliburton, félag sem Dick Cheney vann hjá áður en hann varð varaforseti, fékk feitan samning í Írak. MYND/AP

Um 23 milljarðar dollara, jafnvirði um 1800 milljarða íslenskra króna, hafa gufað upp í Írak frá því að ráðist var inn í landið. Þetta fullyrða fréttamenn þáttarins Panorama á BBC sem rannsakað hafa hvert fjármunir sem verja átti í uppbyggingarstarf fóru.

Fram kemur á fréttavef BBC að fjármunirnir hafi ýmist týnst, verið stolið eða illa gert grein fyrir þeim. Fréttamenn Panorama hafa einnig rannsakað hvaða verktakar hafi hagnast á uppbyggingunni en þagnarákvæði í Bandaríkjunum komi í veg fyrir að hægt sé að ræða ásakanir um spillingu í þessum efnum. Segir BBC að á meðan George Bush sé Bandaríkjaforseti sé ólíklegt að þagnarákvæðin verði afnumin.

Rætt er við Henry Waxman, sem fer fyrir nefnd í fulltrúadeild Bandaríkjaþings um eftirlit og umbætur stjórnvalda, og hann segir hneyksli hversu miklir peningar hafi farið spillis og verið sviknir út af verktökum. „Þetta gæti orðið mesta hermang sögunnar," segir hann.

Fram hefur komið að Halliburton, félag sem Dick Cheney varaforseti var í forsvari fyrir, hafi fengið hátt í 500 milljarða króna samning í Írak og hafi setið eitt að kjötkötlunum.

Þá hefur BBC rakið fjármuni til manns sem bjó í Bretlandi en var skipaður varnarmálaráðherra Íraks árið 2004. Hann og félagar hans eru sakaðir um að hafa svikið um 70 milljarða út úr ráðuneytinu með því að kaupa gamlan pólskan herbúnað og dubba hann upp sem hágæðavopn. Maðurinn, Hazem Shalaan, var dæmdur í tveggja ára fangelsi en flýði land og er nú eftirlýstur af Interpol.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×