Innlent

Kunnátta til að deyfa ísbirni er fyrir hendi

Ísbjörninn sem felldur var í dag.
Ísbjörninn sem felldur var í dag. MYND/Vilhelm

„Það var ekki raunhæft við þær aðstæður sem voru í morgun að bregðast við öðruvísi en að skjóta björninn." Þetta segir Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir.

Hann segir jafnframt að héraðsdýralæknar víða um land séu með deyfibyssur og kunnáttu til að fara með deyfilyf en að í dag hafi einfaldlega ekki verið nóg deyfa að dýrið. Hérlendis sé ekki til neinn ferill um hvað eigi að gera þegar slíkar aðstæður ber að garði og hvað skuli aðhafst eftir að dýrið hafi verið gert óvígt.

Halldór er ekki viss um endanleg afdrif ísbjörnsins en telur líklegt að ásókn verði í að stoppa dýrið upp. „Eina sem þarf að passa sig á er að tríkínur geta verið í kjötinu." En tríkínur eru sníkjudýr og hættulegar mönnum ef einhverjum fer að detta í hug að borða kjötið hrátt. „Þegar byrjað verður að verka dýrið þarf einfaldlega að gæta þess að kjötinu og öllu sem því tilheyrir verði fargað á réttan hátt. Engin hætta stendur af dýrinu að öðru leyti," útskýrir Halldór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×