Borgarráð samþykkti samhljóða í dag að tillögu borgarstjóra að skipa fimm manna starfshóp til að ljúka gerð siðareglna fyrir kjörna fulltrúa Reykjavíkurborgar.
„Samstaða hefur ríkt um mikilvægi siðareglna fyrir kjörna fulltrúa á vettvangi borgarstjórnar á kjörtímabilinu," segir í tilkynningu frá borginni. „Skemmst er að minnast þess að stjórnkerfisnefnd Reykjavíkurborgar var falið að hafa umsjón með staðfestingu siðareglna og taka afstöðu til hugmynda um siðanefnd vorið 2007." Þá segir að í kjölfar þeirrar skoðunar hafi ákveðið að skipa ritstjórn um starfs- og siðareglur síðastliðið haust. „Sú nefnd náði ekki að ljúka vinnu sinni. Hins vegar liggja fyrir ýmis undirbúningsgögn og drög að siðareglum."
Starfshópurinn sem nú verður skipaður skal í vinnu sinni taka mið af fyrirliggjandi gögnum og samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Siðfræðistofnun Íslands og fleiri aðila og skal hann skila niðurstöðu eigi síðar en 1. desember næstkomandi.