Innlent

Verður alltaf að vera til orka fyrir lítt mengandi fyrirtæki

Það verður alltaf að vera til reiðu orka fyrir lítt mengandi hátæknifyrirtæki, sagði Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra fyrir sléttum þremur mánuðum. Deilur um háspennulínur, virkjanir í neðri hluta Þjórsár og við Bitru benda ekki til að iðnaðarráðherra verði að ósk sinni.

Eins og sagt var frá í fréttum Stöðvar 2 í gær er bakslag komið í viðræður Landsnets og sveitarfélaga um nýja háspennulínu til Suðurnesja. Þar með eru áform um álver í Helguvík og netþjónabú á Vallarsvæðinu í uppnámi. Bæði eru háð því að Suðurnes verði tengd rafmagnskerfi landsins með nýrri háspennulínu.

Málið hefur strandað á því að sveitarfélög á svæðinu vilja línuna í jörð, en Landsnet ekki, nema að litlu leyti. Það er hins vegar dýrt, uppundir tvöfalt dýrara yrði að leggja þær í jörð en að reisa þær ofan jarðar.

Eftir að Bitruvirkjun var slegin af er einnig óvissa með hvort nægt rafmagn fæst, raunar gekk framkvæmdastjóri Fjárfestingarstofu svo langt í fréttum Ríkisútvarpsins fyrir skömmu að segja að öll erlend fjárfesting í umhverfisvænum hátækniiðnaði hér á landi væri í uppnámi eftir að hætt var við Bitruvirkjun.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra var hinn kátasti þegar samningar voru undirritaðir í febrúar um alþjóðlega gagnaverið á Keflavíkurflugvelli sem sagt var að markaði tímamót í atvinnusögu þjóðarinnar.

En blikur eru á lofti með það, orkan til netþjónabúsins á koma úr neðri hluta Þjórsár þar sem meirihluti landeigenda ætlar ekki að semja við Landsvirkjun. Þá er aðeins eignarnám mögulegt.

Umhverfisráðherra vill ekki beita eignarnámi en ákvörðun um það er í höndum Össurar iðnaðarráðherra. Orkan þarf svo að ferðast eftir fyrrnefndum háspennulínum og óvíst er hvort samkomulag næst um hvort þær verði ofan eða neðan jarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×