Innlent

Vilhjálmur og Ólafur veiðikóngar borgarstjórnar

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Ólafur F. Magnússon og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson í Elliðaárdalnum í sumar.
Ólafur F. Magnússon og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson í Elliðaárdalnum í sumar.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti borgarstjórnar, og Ólafur F. Magnússon, fyrrverandi borgarstjóri, eru þeir borgarfulltrúar sem fóru oftast í veiði í Elliðaárnar í sumar í boði Orkuveitu Reykjavíkur. Báðir fóru þeir þrisvar sinnum.

Vísir sendi í byrjun vikunnar öllum borgarfulltrúum í Reykjavík fyrirspurn þar sem spurt var hversu oft Orkuveitan hefði boðið viðkomandi í veiði í sumar og hversu oft viðkomandi hefði þegið boðið.

Ellefu borgarfulltrúar svöruðu fyrirspurninni en fjórir svöruðu ekki tölvupóstinum þrátt fyrir ítrekun. Í þeim hópi voru Hanna Birna Kristjándóttir borgarstjóri, Óskar Bergsson, formaður borgarráðs, Gísli Marteinn Baldursson, varaforseti borgarstjórnar, og Kjartan Magnússon, fyrrverandi stjórnarformaður Orkuveitunnar.

Sitjandi borgarstjóri opnar Elliðaárnar árlega í boði Stangveiðifélags Reykjavíkur. Þá er einnig hefð fyrir því að öllum borgarfulltrúum standi til boða að veiða í ánni í boði Orkuveitunnar en þeir fá þó misjafnlega mörg boð. Einnig er sitjandi borgarstjóra og forverum hans á stóli borgarstjóra boðið að veiða í ánni á sérstökum borgarstjóradegi.

Ólíkur fjöldi boða til borgarfullrúa skýrist af því hvort þeir sitji einnig í borgarráði og stjórn Orkuveitunnar, að sögn Eiríks Hjálmarssonar upplýsingarfulltrúa fyrirtækisins. Átta daga í sumar bauð Orkuveitan borgarfulltrúum, fyrrum borgarstjórum, fulltrúum eigenda, stjórnendum fyrirtækisins og viðskiptavinum í veiði í Elliðaárnar.

Boðsgestum Orkuveitunnar stendur oftar en ekki til boða leiðsögn reyndra veiðimanna og ósjaldan er boðið upp á veitingar í tengslum við veiðina. Samkvæmt Eiríki er gestum oftar boðið upp á veitingar í veiðihúsi Stangveiðifélags Reykjavíkur en húsnæði Orkuveitunnar í Elliðaárdal.

Eftirfarandi borgarfulltrúar svöruðu fyrirspurn Vísis:

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Fór tvisvar í hálfan dag og einu sinni í heilan dag sem fyrrverandi borgarstjóri, borgarfulltrúi og vegna setu í borgarráði.

Ólafur F. Magnússon. Fór tvisvar í hálfan dag og einu sinni í heilan dag sem borgarstjóri, borgarfulltrúi og vegna setu í borgarráði.

Dagur B. Eggertsson. Fór í einn og hálfan dag sem fyrrverandi borgarstjóri og vegna setu í borgarráði.

Sigrún Elsa Smáradóttir. Fór tvisvar í hálfan dag sem borgarfulltrúi og vegna setu í stjórn OR.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Fór í hálfan dag sem borgarfulltrúi.

Björk Vilhelmsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Jórunn Frímannsdóttir, Oddný Sturludóttir, Svandís Svavarsdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson þáðu ekki boð Orkuveitunnar um veiði í Elliðaánum. Júlíus, Svandís og Þorleifur tóku að auki fram að þau hefðu aldrei þegið boð um veiði í ánni.

Ólafur tekur fram að vegna starfa sinna sem borgarstjóri hafi honum í sumar verið boðið oftar en undanfarin ár að veiða í Elliðaám. Hann óskaði eftir að koma því á framfæri að hann hafi ekki þegið boð Orkuveitunnar síðastliðin tvö ár. Ólafur segir að ekki sé um nein óeðlileg hagsmunatengsl að ræða þar sem Orkuveitan er í eigu borgarinnar. Hefði svo verið hefði hann ekki þegið umrædd boð. Þvert á móti segist Ólafur hafa barist gegn sjálftöku og spillingu innan borgarinnar.

- Eftir að fréttin birtist hafði ritari Hönnu Birnu Kristjánsdóttur samband við Vísi og sagði að Hanna Birna hefur aldrei þegið boð um veiði í Elliðaám.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×