Innlent

ASÍ hafnar ásökunum Haga

Dómkvaddir matsmenn hafa staðfest að virðisaukaskattslækkun á matvælum skilaði sér að fullu til viðskiptavina verslana 10-11 - öndvert við það sem fram kom í verðkönnunum Alþýðusambandsins. Niðurstaðan er áfellisdómur yfir verðlagseftirliti ASÍ, segir Finnur Árnason, forstjóri Haga. Hann segir óvönduð vinnubrögð eftirlitsins grófa atlögu að orðspori verslanakeðjunnar. ASÍ vísar þessum þungu ásökunum alfarið á bug.

Verðlagseftirlit ASÍ var fengið það hlutverk af stjórnvöldum að halda úti öflugu eftirliti með matarverði áður og eftir að virðisaukaskattur á mat var lækkaður þann fyrsta mars í fyrra. Hagar, sem rekur meðal annars Bónus og 10-11, brást hart við þegar verðlagskannanir ASÍ tóku að birtast og sökuðu sambandið fyrir ónákvæm vinnubrögð við verðlagseftirlitið sem skiluðu að þeirra sögn röngum niðurstöðum og villandi. Kannanir ASÍ bentu til að verslanir 10-11 hefði ekki skilað skattalækkuninni til neytenda og verð hefði aðeins lækkað um 4,4%. Hagar héldu því fram að verð hefði lækkað öllu meira, eða um 6,1%.

Hagar fóru síðan í hart, bönnuðu ASÍ að kanna verð hjá sér, og fóru í dómsmál gegn sambandinu. Héraðsdómur Reykjavíkur kvaddi til matsmenn til að meta verðlækkun í verslunum 10-11 og fengu þeir fullan aðgang að öllum gögnum hjá fyrirtækinu. Matsmennirnir hafa nú skilað af sér og niðurstaða þeirra er skýr. Það er samdóma álit þeirra að raunlækkun í prósentum hjá verslunum 10-11 var í fullu samræmi við það sem vænta mátti. Innkaupakarfa matvæla hjá 10-11 hafi lækkað um rétt tæp 9 prósent.

Í yfirlýsingu sem var sett inn á vef ASÍ fyrir hádegi segir að matsgerðin geti á engan máta verið áfellisdómur yfir starfi verðlagseftirlitsins. Þar sé einungis mat á eigin gögnum fyrirtækisins úr tölvukerfi þess og engan undri að það gefi viðunandi niðurstöðu fyrir Haga. ASÍ safni hins vegar upplýsingum um þau verð sem fólk hafi aðgang að á hillum verslana.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×