Innlent

Höfðingjabýli grafið upp í Mosfellsdal

Niðurstöður fornleifarannsókna á Hrísbrú í Mosfellsdal benda til þess að þar hafi búið höfðingjar á landsnámsöld. Í sumar hafa fundist margar fallegar perlur í víkingaskálanum sem þar er búið að grafa upp.

Um tuttugu manns hafa unnið við fornleifauppgröftinn á Hrísbrú í Mosfellsdal í sumar. Þar vinna sérfræðingar frá mörgum þjóðum t.d. frá Danmörku, Kanada, Bandaríkjunum, Íslandi og Frakklandi. Uppgreftrinum stjórnar Jesse Byock sem er prófessor í fornleifafræði við Kaliforníuháskóla. Hann segir að við kristnitöku hafi Grímur Svertingsson verið lögsögumaður á Mosfelli. Þar hafi búið höfðingjar.

Fornleifarannsóknirnar eru mikilvægar í sambandi við túlkun á Íslandssögunni vegna þess að áður en rannsóknin hófst voru aðeins til ritaðar heimildir um fólkið sem bjó í Mosfellsdal.

Víkingaskálinn er með þeim stærstu á landinu og er mjög vel varðveittur. Hann var vel byggður, sem sést á því grjóti sem er í skálanum. Unnið hefur verið að því í sumar að grafa upp eldstæðið eftir endilöngum skálanum.

Fornleifarannsóknirnar í Mosfellsdal eru styrktar af Mosfellsbæ, Menntamálaráðuneytinu og háskólum í Bandaríkjunum og í Noregi.Búið er að vinna að rannsóknum á Hrísbrú fra árinu 2001 , en könnunargröftur var gerður árið 1995. Rannsóknir síðan hafa leitt í ljós að umfangsmiklar byggðaleifar eru þarna frá víkingaöld.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×