Innlent

Segir hvalveiðar geta skaðað efnahag landsins frekar

Framkvæmdastjóri Alþjóðlega dýraverndunarsjóðsins, IFAW, í Bretlandi hvetur íslensk stjórnvöld til þess að hætta við fyrirhugaðar atvinnuveiðar á hrefnu og segir það geta skaðað efnahag landsins. Þetta kemur fram á vefsíðunni wildlifeextra.com.

Þar segir af því að íslensk stjórnvöld hafi í dag heimilað að veiddar skuli 40 hrefnur á yfirstandandi fiskveiðiári. Það gangi þvert á fyrri yfirlýsingar stjórnvalda um að ekki yrði ráðist í veiðar fyrr en markaðir fyrir hvalkjöt fyndist.

Robbie Marsland, framkvæmdastjóri IFAW, segir á síðunni að áframhaldandi veiðar geti valdið miklum skaða í efnahagslífi Íslands sem nú þegar eigi í vök að verjast. Þá geti þetta einnig haft áhrif á orðspor Íslands á alþjóðavettvangi. ,,Þegar Íslendingar drápu sjö langreyðar, sem eru í útrýmingarhættu, í atvinnuskyni árið 2006 var því harðlega mótmælt og kjötið var sett í frysti þar sem engir markaðir hafa fundist fyrir það," segir Marsland.

Hann bendir aftur á móti á að hvalaskoðun sé kostur sem vel sé hægt að græða á og að yfir hundrað þúsund manns hafi farið í slíkar ferðir á Íslandi í fyrra. ,,Við hvetjum íslensku ríkisstjórnina til þess að verja þennan mikilvæga iðnað og efnahagslega hagsmuni sína í víðara samhengi," segir Marsland.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×