Innlent

Framsókn og Sjálfstæðisflokkur safna liði á palla Ráðhússins

Efnt var til mótmæla á pöllum Ráðhússins þegar meirihluti Sjálfstæðisflokksins og F-lista tók við í janúar síðastliðnum.
Efnt var til mótmæla á pöllum Ráðhússins þegar meirihluti Sjálfstæðisflokksins og F-lista tók við í janúar síðastliðnum.

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hvetja félagsmenn sína til þess að fjölmenna á palla Ráðhússins í fyrramálið þar sem von sé á skipulögðum aðgerðum af hálfu minnihlutaflokkanna í borgarstjórn.

Í pósti sem sendur er frá skrifstofu Framsóknarflokksins til stjórnarmanna í kjördæmissambandi og framsóknarfélögunum í Reykjavík, og Vísir hefur undir höndum, er minnt á að nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks taki formlega við á aukaborgarstjórnarfundi í fyrramálið klukkan tíu. „Athugið breytta tímasetningu fundarins," segir í póstinum.

Þar segir einnig að mikilvægt sé að framsóknarmenn mæti á pallana þar sem búist sé við skipulögðum aðgerðum af hálfu minnihlutaflokkanna. „Því viljum við hvetja ykkur til að fjölmenna og taka með fjölskyldu og vini. Gott er að mæta tímanlega þar sem búist er við örtröð svo menn þurfa að vera mættir á bilinu 8:30-9," segir í tilkynningunni. Þar segir einnig að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn ætli að reyna að halda skipulega utan um mætingu á pallana og er fólk beðið um að staðfesta komu sína.

Fram kom á mbl.is í morgun að Ungir jafnaðarmenn og Ung vinstri græn hyggist á morgun efna til mótmæla fyrir utan ráðhúsið fyrir borgarstjórnarfundinn en ekki verður farið á pallana sjálfa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×