Innlent

Ísbjarnaskýrsla kynnt á næstu vikum

Ísbjörninn sem felldur var við Hraun á Skaga.
Ísbjörninn sem felldur var við Hraun á Skaga. MYND/Valli

Starfshópur sem umhverfisráðherra skipaði fyrr í sumar til að vinna viðbragðsáætlun vegna hugsanlegrar landtöku hvítabjarna, skilar tillögum sínum til ráðherra á næstu vikum. „Við erum að vinna þessa skýrslu og erum komin langt með hana," segir Hjalti Guðmundsson, sviðsstjóri náttúruauðlinda hjá Umhverfisstofnun og formaður starfshópsins, í samtali við Vísi.

Eftir að tveir hvítabirnir gengu á land á Skaga í Skagafirði í júní og voru felldir þar ákvað Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra að skipa starfshópinn og átti hann meðal annars að taka mið af þeirri reynslu sem fékkst við landtöku bjarnanna tveggja. Eins og kunnugt er var reynt að fanga annan þeirra en það tókst ekki.

Hjalti vill ekkert gefa upp um niðurstöður starfshópsins því fyrst þurfi að kynna þær fyrir ráðherra. Samkvæmt tilkynningu umhverfisráðuneytisins átti starfshópurinn að skila tillögum fyrir 1. september en Hjalti segir að beðið sé eftir nokkrum álitum, meðal annars að utan, áður en skýrslunni verði lokið. Það gerist á næstu vikum.

Búr var flutt til landsins frá Danmörku þegar reynt var að fanga hvítabjörninn sem gekk á land við Hraun á Skaga og að sögn Hjalta er það í geymslu á Akueyri. Engin ákvörðun hafi þó verið tekin um það hvort það verði keypt eða leigt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×