Innlent

Blair óskaði eftir stuðningi Íslands við innrásina í Írak

Íslenskir ráðamenn samþykktu ósk breskra stjórnvalda um stuðning við innrásina í Írak degi áður en Bandaríkjamenn birtu lista yfir hinna viljugu þjóða.

Þetta kemur fram í grein Vals Ingimundarsonar sagnfræðings í nýútkominni bók um íslenska utanríkisstefnu á árunum 1991 til 2007 og Morgunblaðið fjallar um í dag.

Blaðið greinir frá að degi áður en bandarísk stjórnvöld óskuðu eftir stuðningi Íslands við Íraksstríðið höfðu bresk stjórnvöld einnig gert það. Til stóð að Tony Blair, sem þá var forsætisráðherra Bretlands, læsi upp lista í breska þinginu 17. mars 2003 með nöfnum ríkja sem studdu innrásina í Írak. Af einhverjum ástæðum var það ekki gert.

Degi síðar barst beiðni frá bandarískum ráðamönnum um að Ísland yrði á listanum. Hingað til hefur því verið haldið fram að ákvörðunin hafi verið tekin þann dag.

,,Halldór hefur sagt opinberlga að hann hafi lagt blessun sína yfir að Ísland yrði á lista hinna viljugu þjóða í tengslum við ríkisstjórnarfund hinn 18. mars. Hins vegar ber heimildum Vals ekki saman um hvort Halldór hafi í raun gefið samþykki sitt á þeim tímapuntki, þ.e. áður en bandaríska sendiherranum var tilkynnt að Ísland væri með á listanum. Síðar um daginn færði sendiherra Íslands í Washington bandarískum stjórnvöldum þau skilaboð að bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra stæðu að baki ákvörðuninni."














Fleiri fréttir

Sjá meira


×