Innlent

Þrír kostir hjá dómsmálaráðuneyti ef kæra berst

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður allsherjarnefndar.
Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður allsherjarnefndar.

Aukafundi allsherjarnefndar Alþingis var að ljúka og var mál Paul Ramses það eina sem var á dagskrá fundarins. Dómsmálaráðuneytið mun ekki aðhafast í málinu nema kæra berist.

,,Fundurinn var upplýsandi og margt gagnlegt kom fram," segir Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar sem jafnframt er varaformaður allsherjarnefndar.

Ágúst Ólafur segir að dómsmálaráðuneytinu hafi ekki borist formleg kæra en nauðsynlegt er að slík kæra berist til að ráðuneytið geti fjallað um málið. Ákvörðun um næstu skref eru því hjá Paul Ramses og lögfræðingi hans.

Dómsmálaráðuneytið stendur frammi fyrir þremur kostum berist kæra. ,,Ráðuneytið getur staðfest eða ógilt ákvörðun Útlendingastofnunar eða snúið henni við og farið fram á að stofnunin felli efnislegt mat um málið. Það var ekki gert þegar Paul var vísað úr landi," segir Ágúst Ólafur.

,,Við ræddum heilmikið um lögin og hvort að huga þurfi að lagabreytingum," segir Ágúst Ólafur og bætir við að ekki hafi verið tekin ákvörðun hvað þann hluta varðar.

Fulltrúar frá dómsmálaráðuneytinu, Útlendingastofnun, Rauða krossinum, Íslandsdeild Amnesty International og Alþjóðahúsinu sátu fundinn.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×