Innlent

Breiðavíkurdrengir hafna tilboði ríkisstjórnarinnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Umfangsmikil skýrsla Breiðavíkurnefndarinnar var kynnt i febrúar á þessu ári.
Umfangsmikil skýrsla Breiðavíkurnefndarinnar var kynnt i febrúar á þessu ári.
„Við höfnum þessu tilboði ríkisstjórnarinnar. Okkur finnst þetta svívirðileg skömm að þeir skuli gera okkur þetta tilboð," segir Georg Viðar Björnsson, varaformaður í Breiðavíkursamtökunum.

Í frumvarpi, sem forsætisráðherra er með í smíðum, er gert ráð fyrir að bætur til þeirra sem vistaðir voru í Breiðavík á árunum 1959-1972 verði á bilinu 375 þúsund krónur, upp í rúmar 2 milljónir. Frumvarpið er byggt á umfangsmikilli skýrslu sem gefin var út snemma á þessu ári.

Georg Viðar segir að Ragnar Aðalsteinsson, lögfræðingur Breiðavíkursamtakanna, hafi verið búinn að leggja fram tillögu um bætur þar sem gert hafi verið ráð fyrir að það yrði borguð ákveðin summa sem yrði síðan margfölduð með vistunartímanum. Gert hafi verið ráð fyrir að þessi summa yrði á bilinu 600-800 þúsund fyrir mánuð en meðalvistunartími hefði verið 21 mánuður. Tilboð ríkisstjórnarinnar sé því talsvert lægra en gert hafi verið ráð fyrir.

Veit ekki hvernig hægt er að meta skaðann

„Síðan er það náttúrlega sem mér finnst verst af öllu að menn eiga að fara að labba á milli lögfræðings, sálfræðings og geðlæknis og láta meta sig," segir Georg Viðar. „Sko það er búð að meta okkur alveg niður í skítinn þarna fyrir vestan," bætir hann við. Georg Viðar segist ekki sjá hvernig hægt sé að meta þá eftir allan þennan tíma sem liðinn er frá vistinni. „Það eru að verða komin 50 ár síðan ég kom þarna vestur. Ég kom þarna 1958 og var þarna í fimm ár," segir hann.

Fundað um málið á morgun

Georg Viðar segir að haldinn verði stjórnarfundur í Breiðavíkursamtökunum á morgun og haft verði samband við Ragnar Aðalsteinsson sem muni vonandi taka ákvörðun um framhald málsins fyrir þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×