Innlent

Borgarstjóri vísar fullyrðingum Sóleyjar á bug

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur F. Magnússon borgarstjóri.
Ólafur F. Magnússon borgarstjóri. Mynd/ Valli.

Borgarstjóri vísar á bug yfirlýsingum Sóleyjar Tómasdóttur, varaborgarfulltrúa Vinstri grænna um að afstaða hans í mannréttindamálum sé byggð á vanþekkingu og fordómum gagnvart minnihlutahópum.

Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri segist í yfirlýsingu þvert á móti, hafa lagt áherslu á þennan málaflokk með ýmsu móti, ekki síst þá þætti er varði málefni minnihlutahópa. Hann segir að unnið sé markvisst að margvíslegum mannréttindaverkefnum sem tilheyri hinum ýmsu sviðum borgarinnar.

„Nú þegar hefur verið unnið að því að kynna mannréttindastefnu borgarinnar s.s með þýðingu hennar á fimm tungumál, opnuð hefur verið heimasíða mannréttindaskrifstofu og verið er að leggja lokahönd á verkáætlun í málefnum innflytjenda. Einnig eru starfandi ýmsir starfshópar á vegum mannréttindaráðs eins og t.d. um möguleika á atvinnuþátttöku fatlaðra og öryggi á og við veitingastaði borgarinnar," segir í yfirlýsingu frá borgarstjóra.

Ólafur segir að Sóley og hundrað daga meirihlutinn hafi haft rúman mánuð til að ráða í stöður hjá Mannréttindaskrifstofu sem þau hafi þó ekki gert. Þá bendir hann á að í tíð hundrað daga meirihlutans, í nóvember sl. hafi enginn starfsmaður á mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar verið í fjórar vikur, meðan mannréttindastjóri var í námsleyfi

„Ákvörðun meirihlutans í borgarstjórn nú að gera skipulagsbreytingar á starfsemi mannréttindaskrifstofu borgarinnar miðar að því að nýta betur þann mannauð sem nú þegar starfar að mannréttindamálum á öllum sviðum borgarinnar en alls starfa níu mannréttindafulltrúrar innan borgarkerfisins. Með skipulagsbreytingunum gefst meira svigrúm til að styrkja einstök verkefni sem nýtast munu beint í þágu borgarbúa," segir borgarstjóri í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×