Heikki Kovalainen verður haldið á sjúkrahúsi í Barcelona í eina nótt til viðbótar á meðan að hann gengst undir rannsóknir vegna árekstursins í spænska kappakstrinum í gær.
Kovalainen ók á vegg á meira en 200 km/klst hraða og missti fyrst um sinn meðvitund. Hann gaf þó merki um að það væri í lagi með hann er hann var fluttur í burt á sjúkrabörum.
„Ég er ánægður með líðan hans miðað við þann árekstur sem hann lenti í. Honum gengur vel," sagði Aki Hintsa, læknir McLaren-liðsins.
Það hefur einnig verið greint frá því að hann varð ekki fyrir neinum alvarlegum höfuðáverkum. Forráðamenn McLaren eru vongóðir um að hann geti tekið þátt í tyrkneska kappakstrinum þann 11. maí næstkomandi.
