Innlent

Áfram í gæsluvarðhaldi vegna árásar í 10-11

MYND/Valli

Hæstiréttur staðfesti í dag áframhaldandi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem játað hefur að hafa ráðist á öryggisvörð í verslun 10-11 í Austurstræti og veitt honum lífshættulega áverka. Skal hann sitja í gæsluvarðhaldi til 21. maí samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar.

Eins og fram hefur komið í fréttum réðst maðurinn á öryggisvörðinn og sló hann í höfuðið með flösku þannig að það blæddi inn á heila hans og tókst með naumindum að bjarga lífi öryggisvarðarins. Árásarmaðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi nánast frá upphafi mánaðar þegar árásin var gerð.

Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að rannsókn lögreglu á málinu sé nánast lokið en beðið sé eftir frekari niðurstöðum lækna um afleiðingar árás­ar­inn­ar, ástand brotaþola og batahorfur. Þá þurfi að senda málið til ríkissaksóknara. Ætla verði ríkissaksóknara eitthvert svigrúm til ákvörðunar um saksókn.

Lögregla bendir á að brotið geti varðað allt að 16 ára fangelsi og að játning liggi fyrir. Vegna þess og þeirra alvarlegu afleiðinga sem hlutust af árásinni þyki lögreglustjóra almannahagsmunir standa til þess maðurinn sæti áfram gæsluvarðhaldi. Lögregla muni ljúka rannsókn sinni fyrir 21. maí og koma málinu til ríkissaksóknara til þóknanlegrar meðferðar og ákvörðunar um saksókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×