Skoðun

Að læra að læra: Vika símenntunar 21. – 28. september

Sólveig Lilja Snæbjörnsdóttir skrifar

Símenntun er regnhlífarhugtak yfir námskeið og lengri námsleiðir sem standa fullorðnum einstaklingum til boða. Oft eru þessi námskeið starfstengd þar sem markmiðið er að þjálfa hæfni sem er mikilvæg í starfi. Símenntun nær einnig yfir öll þau tómstunda-, tungumála- og sjálfstyrkingarnámskeið sem í boði eru fyrir fullorðna.

Mörg stéttarfélög eru með sérstaka sjóði sem gera félagsmönnum kleift að sækja símenntunarnámskeið og hvetja félögin þá til þess.

Samfélag okkar þróast hratt og oft er erfitt að fylgjast með öllum breytingum sem eiga sér stað í störfum okkar. Þing Evrópusambandsins mælir með eftirfarandi átta færniiatriðum (key competences) sem æskilegt er að hafa til hliðsjónar þegar hugað er að símenntun:

  • Samskipti á móðurmálinu

  • Samskipti á erlendum tungumálum

  • Stærðfræðikunnátta og grundvallarþekking í vísindum og tækni

  • Færni í stafrænni tækni, upplýsinga- og samskiptatækni

  • Að læra að læra

  • Félagsleg færni og borgaravitund.

  • Skilningur á frumkvöðlastarfi og að sýna frumkvæði

  • Menningarvitund og tjáning

Til þess að takast á við öra starfsþróun í atvinnulífinu er mikilvægt að stuðla að aukinni símenntun þar sem þessi færni er þjálfuð.

Eitt af þessum atriðum er að læra að læra. Þetta virðist í fyrstu stinga svolítið í stúf við hina færniþættina. Hins vegar er þessi færni eflaust einna mikilvægust. Að læra að læra þýðir í raun að vakna til vitundar um að á meðan við lifum erum við stöðugt að læra.

Það er einnig ábending um hve mikilvægt það er að leita leiða til að læra meira og að geta skipulagt nám okkar. Símenntunarmiðstöðvar hafa þetta að leiðarljósi og reyna að koma til móts við einstaklinga og atvinnulíf með því að bjóða upp á alls kyns leiðir til þess að aðstoða fólk við að læra að læra.

Í síbreytilegu starfsumhverfi og samfélagi er mikilvægt að tileinka sér kosti þess að læra. Opinn hugur og örlítið þor er oft það eina sem til þarf.

Bæði einstaklingar og atvinnurekendur þurfa þess vegna að vera vakandi fyrir mikilvægi símenntunar og hvar hún stendur til boða.

Þann 21. - 28. september er vika símenntunar haldin. Markmið viku símenntunar að þessu sinni er að vekja áhuga fólks sem ekki hefur notið mikillar formlegrar menntunar á tækifærum til þess að efla sig með símenntun. Í viku símenntunar eru atvinnurekendur hvattir til að vekja athygli á gildi símenntunar á vinnustöðum sínum og fólk hvatt til að halda áfram að læra alla ævi.

Í viku símenntunar mun Framvegis, miðstöð um símenntun, bjóða upp á örnámskeið og kynningar á námsleiðum sem vinnustaðir geta pantað þeim að kostnaðarlausu. Yfirlit yfir það sem í boði er má finna á heimasíðunni www.framvegis.is.






Skoðun

Sjá meira


×