Innlent

Mótmælendur í jólafríi

Hörður Torfason
Hörður Torfason

Ríkisstjórnin, stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, bankastjórar og auðmenn sem hafa leikið almenning þessa lands illa skulu ekki halda að það sé að draga úr krafti mótmælanna. Það er af og frá. Reyndar er ætlunin að efla þau og styrkja ef eitthvað er. Þetta segir í tilkynningu frá Röddum fólksins sem hafa staðið að mótmælum ellefu laugardaga í röð.

Hörður Torfason, einn skipuleggjenda mótmælanna, segir að fólk sé almennt að hugsa um jólin þessa dagana, það eigi jafnt við um mótmælendur og aðra. Hins vegar muni menn byrja að nýju eftir áramót af fullum krafti. Hörður vill þó ekki segja hvernig hann ætlar að efla mótmælin. „Við erum að skoða ýmislegt, en eins og í öllum góðum hernaði þá segir maður ekki neitt, maður mætir bara á vígvöllinn," segir Hörður í samtali við Vísi. Hann leggur þó mikla áherslu á að hann standi fyrir friðsamlegum mótmælum.

Raddir fólksins boða til mótmælafundar á Austurvelli næstkomandi laugardag, 27. desember, klukkan þrjú. Þetta verður tólfti laugardagurinn í röð sem mótmælt er og verða framsögumenn Björn Þorsteinsson heimspekingur og Ragnhildur Sigurðardóttir sagnfræðingur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×