Erlent

Loksins fékk Brown sitt Falklandseyjastríð

Gordon Brown.
Gordon Brown.

Ekki eru allir Bretar á bandi Gordons Brown þegar kemur að deilu hans við íslensk stjórnvöld. Blaðamaðurinn Tom Braithwaite hjá Financial Times bloggar á heimasíðu blaðsins þar sem hann segir að upphlaup Brown sé í pólitískum tilgangi og að hann hafi loksins fengið sitt „Falklandseyjastríð".

„Ísland og Bretland létu hendur skipta í gær," segir Braithwaite. „Það er að segja risahnefi Gordons Brown reiddi til höggs gegn heiðvirðum varnartilburðum Geirs Haarde."

Hann bendir á að leikurinn sé ójafn: „Hér er verið að ræða um lítið land sem tekst á við fjármálakrísu (Bretland) og örsmátt ríki sem glímir við algjört hrun í efnahagskerfi sínu."

„Kærulausir sparifjáreigendur og fáránlega óábyrgar sveitarstjórnir dældu peningunum sínum inn í íslenska banka sem buðu grunsamlega háa vexti á innistæðum. Bankarnir brugðust og þá fékk Gordon Brown tækifæri til að láta ljós sitt skína, sitt Falklandseyjastríð."

„Fyrir utan auðvitað, að stríðið við Argentínumenn var að minnsta kosti sanngjarn slagur. Ég horfði á Íslending gráta þegar Brown spúði pólitísku eitri sínu."

„Annað hvort þurfum við að sanna að Ísland sé hryðjuverkaríki, sem rænir innistæðum viðskiptavina erlendis, eða við viðurkennum að Ísland sé gjaldþrota þjóð sem lenti í gáleysislegum bankamönnum, getulausum eftirlitsstofnunum og þægum stjórnmálamönnum. Þjóð sem er í raun ekki svo ólík okkur," skrifar Bretinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×